Fréttir

Heimsókn í alvöru sveit undir Eyjafjöllum

Í Rangárþingi eystra er hægt að heimsækja sveitarbæi og upplifa alvöru sveit. Það eru bæirnir Stóra Mörk og Ásólfsskáli undir Eyjafjöllum sem bjóða gestum heim. Á báðum bæjunum er fjölbreyttur búskapur og taka ábúendur vel á móti gestum. Einnig er þar rekin ferðaþjónusta þannig að hægt er að dvelja í nálægð við býlin og dýrin og njóta um leið alls þess sem þau hafa upp á að bjóða. Hægt er að finna frekari upplýsingar á heimasíðun bondi.is

Nýtt glæsilegt tjaldstæði á Hellishólum í Fljótshlíð tekið í notkun

Í hjarta Suðurlands og í skjóli tignarlegra jökla og fjalla er að finna nýtt glæsilegt tjaldstæði á Hellishólum í Fljótshlíð. Að sögn eiganda Hellishóla, Víðirs Jóhannssonar hefur vinnan við tjalstæðið staðið yfir síðast liðin tvö ár og var formlega tekið í notkun í maí 2020. Tjalstæðið er staðsett nálægt golfvellinum á Hellishólum og þar má finna nýtt salernis- og þjónustuhús með sturtum. Frá tjaldsvæðinu er veitingarsalurinn á Hellishólum í göngufjarlægð ásamt skemmtilegum leiktækjum fyrir börn á öllum aldri. Á síðast ári var bætt við vinsælum hoppukastala á leiksvæðið og á hverju vori er flutt bleikja og sjóbirtingur í tjörn sem gaman er að veiða í. Á Hellishólum er vinsæll golfvöllur sem hentar öllum, bæði byrjendum og lengra komnum, og er frábær fjölskylduskemmtun.

Þórsgata ný 22 km löng gönguleið í Þórsmörk

Þórsgata er ný 22 kílómetra löng gönguleið sem liggur hring í kringum Þórsmörk. Bjarni Freyr hjá Volcano Huts í Húsadal lýsti þessari leið fyrir okkur og ljóst er að Þórsgatan er spennandi valkostur fyrir útivistarfólk og fólk sem vill upplifa eina fallegustu náttúruperlu Íslands. Leiðin liggur upp frá Húsadal, í gegnum Hamraskóg að Slyppugilshrygg og þaðan framhjá Tröllakirkju uppá Tindfjallasléttu, niður Stangarháls og meðfram Krossá að Langadal, upp á Valahnúk, niður eftir endilöngum Merkurrana, út á Markarfljótsaura og endar aftur í Húsadal. Hægt er að skipta leiðinni upp í styttri áfanga allt eftir getu og áhuga. Þegar leiðinni er skipt upp má tala um fimm hringi sem hver um sig býður upp á fallegt útsýni og fjölbreytta upplifun en hægt er að velja allt frá mjög stuttum göngutúrum sem taka ekki nema 20 mínútur upp í heilsdags leiðangra með ýmsum útúrdúrum. Göngufólk getur þannig sett sér takmark um að klára Þórsgötu í heilu lagi eða í eins mörgum áföngum og hentar hverjum og einum. Sjá má ítarlegri upplýsingar um nýju gönguleiðina og aðra þjónustu í Húsadal inn á nýrri heimasíðu Volcano Huts. https://volcanotrails.is/

Endurbætur á Krosskirkju í Landeyjum

Vinna við endurbætur á Krosskirkju hafa staðið yfir frá árinu 2015. Verkið hefur verið unnið með hléum og kláraðist að mestu í dag, fyrir utan málningarvinnu. Að sögn Elvars Eyvindssonar, bónda frá Skíðbakka og formanns sóknarnefndar Krosssóknar, þá hófst vinnan árið 2013 með umsókn til Húsafriðunarsjóðs. Verkefnið með umsókninni var að gera úttekt og skýrslu um byggingarsögu kirkjunnar, og var hún í framhaldinu teiknuð upp. Það voru sérfræðingar frá Argos arkitektum sem unnu þá vinnu og höfðu þeir m.a. til hliðsjónar lýsingar á kirkjunni frá árinu 1850. Kirkjan er með elstu húsum í Rangárvallasýslu, og þótt víðar væri leitað. Altaristafla kirkjunnar er ein merkasta gersemi íslenskrar menningarsögu og hafa Landeyingar varðveitt hana vel í hátt í 400 ár. Altaristaflan er frá árinu 1650 og er því 370 ára gömul. Það voru þeir Kláus Eyjólfsson lögréttumaður í Hólmum í Landeyjum og Níels Klementsson Kaupmaður í Vestmannaeyjum sem gáfu altaristöfluna í tengslum við Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum. Altarisskápurinn í kirkjunni er einnig fallegur menningararfur en hann var smíðaður af Ámunda Jónssyni Kirkjusmið á átjándu öld. Húsasmíðameistararnir sem hafa unnið að endurgerð kirkjunnar eru þeir Hjálmar Ólafsson frá Hvolsvelli sem hóf verkið árið 2015 og lagaði norður og suður veggi kirkjunnar. Árið 2018 tóku við verkinu þeir Ólafur og Albert Sigurjónssynir og Þórbergur Hrafn Ólafsson á Forsæti í Flóa. Þeir gerðu gaflana í kirkjunni, smíðuð öll loftin, gólfin, milligólfið, bekkina, altarið og predikunarstólinn. Mikil ánægja var við lok verksins í dag enda handverkið einstakt og hvergi misfellu að sjá. Elvar sem hefur verið formaður sóknarnefndar frá því verkið hófst segir að allt samstarf hafi gengið vel og ákvarðanir teknar í einum rómi. Kirkjan er einstaklega falleg sem guðshús og sem minnisvarði um gamlan stíl í anda miðalda. Best er að hafa samband við Sigurð Sveinbjörnsson á Krossi til að skoða kirkjuna.