14.06.2020
Árleg vorferð starfsfólks á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli var farin s.l. miðvikudag í sól og blíðu. Farið var með South Coast Adventure ferðaskipuleggjendum á Hvolsvelli og var farartækið þrír ofurjeppar. Lagt var af stað frá Hvolsvelli og lá leiðin beint upp á Eyjafjallajökul þar sem allir nutu útsýnisins sem er einstakt í svona góðu veðri. Ferðanefndin bauð upp á gott nesti á toppi jökulsins, við Goðastein, sem er nauðsynlegt í svona ferð.
Af toppi Eyjafjallajökuls var keyrt inn í Þórsmörk, þar var grillað, gengið um og spilað eins og lög gera ráð fyrir á þessum merka og fallega stað. Keyrt var til baka um kvöldið og allt starfsfólk endurnært og ánægt með ferðina.
12.06.2020
Sveitarfélagið Rangárþing eystra varð til þann 9. júní árið 2002. Þá sameinuðust sex hreppar í austanverðri Rangárvallarsýslu í eitt sveitarfélag; Hvolhreppur, Fljótshlíðarhreppur, Austur-Landeyjahreppur, Vestur-Landeyjahreppur, Austur-Eyjafjallahreppur og Vestur-Eyjafjallahreppur. Hvert þessarar sveitarfélaga átti sitt félagsheimili sem rann inn í hið nýja sveitarfélag, Rangárþing eystra.
Gera má ráð fyrir því að það sé met á landsvísu en flest sveitarfélög eiga eitt félagsheimili þó að til séu sveitarfélög sem eiga ekkert og önnur sem eiga fleiri en eitt.
Sum félagsheimila í Rangárþingi eystra hafa fengið meira hlutverk en að sinna samfélagslegum verkefnum og eru þá hlutverkin oftast tengd ferðaþjónustu á einhvern hátt. Rangárþing eystra leigir út félagsheimlin fyrir stærri viðburði eins og fyrir stórar fundi, ráðstefnur, ættarmót, jarðafarir veislur eins og fermingar og afmæli. En einnig fara þar fram samfélagslegir viðburðir eins og 17. júní hátíðarhöld og þorrablót. Oft er talað um að félagsheimilin sem hjartað í hverju samfélagi og við erum rík að eiga sex slík heimili.
Skrifstofa Rangárþings eystra gefur upplýsingar um félagsheimilin og einnig má finna upplýsingar um þau á heimasíðu sveitarfélagsins.
12.06.2020
Í Rangárþingi eystra er hægt að heimsækja sveitarbæi og upplifa alvöru sveit. Það eru bæirnir Stóra Mörk og Ásólfsskáli undir Eyjafjöllum sem bjóða gestum heim.
Á báðum bæjunum er fjölbreyttur búskapur og taka ábúendur vel á móti gestum. Einnig er þar rekin ferðaþjónusta þannig að hægt er að dvelja í nálægð við býlin og dýrin og njóta um leið alls þess sem þau hafa upp á að bjóða. Hægt er að finna frekari upplýsingar á heimasíðun bondi.is
07.06.2020
Í hjarta Suðurlands og í skjóli tignarlegra jökla og fjalla er að finna nýtt glæsilegt tjaldstæði á Hellishólum í Fljótshlíð. Að sögn eiganda Hellishóla, Víðirs Jóhannssonar hefur vinnan við tjalstæðið staðið yfir síðast liðin tvö ár og var formlega tekið í notkun í maí 2020. Tjalstæðið er staðsett nálægt golfvellinum á Hellishólum og þar má finna nýtt salernis- og þjónustuhús með sturtum.
Frá tjaldsvæðinu er veitingarsalurinn á Hellishólum í göngufjarlægð ásamt skemmtilegum leiktækjum fyrir börn á öllum aldri. Á síðast ári var bætt við vinsælum hoppukastala á leiksvæðið og á hverju vori er flutt bleikja og sjóbirtingur í tjörn sem gaman er að veiða í. Á Hellishólum er vinsæll golfvöllur sem hentar öllum, bæði byrjendum og lengra komnum, og er frábær fjölskylduskemmtun.
05.06.2020
Vinna við endurbætur á Krosskirkju hafa staðið yfir frá árinu 2015. Verkið hefur verið unnið með hléum og kláraðist að mestu í dag, fyrir utan málningarvinnu. Að sögn Elvars Eyvindssonar, bónda frá Skíðbakka og formanns sóknarnefndar Krosssóknar, þá hófst vinnan árið 2013 með umsókn til Húsafriðunarsjóðs. Verkefnið með umsókninni var að gera úttekt og skýrslu um byggingarsögu kirkjunnar, og var hún í framhaldinu teiknuð upp. Það voru sérfræðingar frá Argos arkitektum sem unnu þá vinnu og höfðu þeir m.a. til hliðsjónar lýsingar á kirkjunni frá árinu 1850.
Kirkjan er með elstu húsum í Rangárvallasýslu, og þótt víðar væri leitað. Altaristafla kirkjunnar er ein merkasta gersemi íslenskrar menningarsögu og hafa Landeyingar varðveitt hana vel í hátt í 400 ár. Altaristaflan er frá árinu 1650 og er því 370 ára gömul. Það voru þeir Kláus Eyjólfsson lögréttumaður í Hólmum í Landeyjum og Níels Klementsson Kaupmaður í Vestmannaeyjum sem gáfu altaristöfluna í tengslum við Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum. Altarisskápurinn í kirkjunni er einnig fallegur menningararfur en hann var smíðaður af Ámunda Jónssyni Kirkjusmið á átjándu öld.
Húsasmíðameistararnir sem hafa unnið að endurgerð kirkjunnar eru þeir Hjálmar Ólafsson frá Hvolsvelli sem hóf verkið árið 2015 og lagaði norður og suður veggi kirkjunnar. Árið 2018 tóku við verkinu þeir Ólafur og Albert Sigurjónssynir og Þórbergur Hrafn Ólafsson á Forsæti í Flóa. Þeir gerðu gaflana í kirkjunni, smíðuð öll loftin, gólfin, milligólfið, bekkina, altarið og predikunarstólinn. Mikil ánægja var við lok verksins í dag enda handverkið einstakt og hvergi misfellu að sjá.
Elvar sem hefur verið formaður sóknarnefndar frá því verkið hófst segir að allt samstarf hafi gengið vel og ákvarðanir teknar í einum rómi. Kirkjan er einstaklega falleg sem guðshús og sem minnisvarði um gamlan stíl í anda miðalda. Best er að hafa samband við Sigurð Sveinbjörnsson á Krossi til að skoða kirkjuna.