Útivera og hreyfing á aðventunni; skógræktarreiturinn í Múlakoti

Þorsteinn Jónsson, frá Lambey, er hafsjór fróðleiks um náttúru og sögu Rangárþings eystra. Í gær, sunnudaginn 29. nóvember, setti Þorsteinn inn á facebook síðu sína, létta áskorun á sveitunga sína en hún bar heitið "Útivera og hreyfing á aðventunni. Hér fær Þorsteinn orðið:

Í Fljótshlíðinni er einn staður sem gæti talist falin perla, en það er "gamla gróðrarstöðin" í Múlakoti. Þar var fyrrum uppeldisstöð plantna sem var lögð af er
Skógræktin á Tumastöðum komst í gagnið upp úr 1950. Staðurinn er í umsjón "Skógræktarinnar" en sökum lítils mannafla og fjárleysis hefur henni verið lítið sinnt undanfarin ár og leit óvenju illa út í vor sökum óveðra og trjábrota síðastliðinn vetur.
Rangárþing eystra samdi því við "Skógræktina" um að koma til aðstoðar við að grisja brotin tré undanfarinna ára, koma þeim á Tumastaði í veg fyrir kurlara og síðan að gera gönguleiðir um gömlu stöðina og upp í skóginn fyrir ofan kletta. Þetta unnu síðan atvinnu aukandi hópur sveitarfélagsins, þeir námsmenn sem sóttu um vinnu í ástandinu sem var og er enn. Grafnir voru skurðir til að þurrka gönguleiðir og borið kurl í stíginn ofan og neðan kletta. Lagaðir voru bekkir og borð, málað hlið og gert við tröppur. Má segja að þessi fyrrum náttúruparadís hafi fengið smá uppreisn æru !
Þarna voru fyrr á árum stærstu tré landsins uns aðeins stærra tré fanns á Kirkjubæjarklaustri. Engu að síður eru þarna hæstu tré landsins af einstökum tegundum, en hvað sem öllu slíku kemur við fyrir trjáunnendur, þá er þarna orka og náttúra sem hleður batterý fyrir ómerka farand verkamenn eins og mig.
Það sem ég tók eftir var að enginn kom á staðinn meðan við vorum að störfum og í þau skipti sem ég hef farið þangað síðan, er ég einn á þessum merkilega stað.
Ég vil hvetja alla sveitunga mína til að prufa þennan stað, það þarf að viðra alla menntskælinga, eldri borgarar og almenningur allur þarfnast þess að fá að hreifa sig í hálfan tíma eða einn öðru hvoru. Hér er uppástunga um stað sem hægt er að heimsækja í hvernig veðri sem er.
 
Leiðarlýsing: Keyrt er upp Múlakots afleggjaran og beygt til hægri, fram hjá Múlakotsbæjunum til austurs uns komið er að tréhliði til vinstri er sjá má á mynd. Þar eru lítil bílastæði og gengið er inn um hliðin stuttan stíg sem greinist í tvennt fyrir neðan gamla skógarvarðahúsið. Til hægri er stígurinn undir klettunum og ef hann er genginn á enda út úr trjánum endið þið við lítinn foss. Í Þorsteinslundi höfum við fossinn Drýfanda, en þessi heitir að ég held Mígandi og þar er og gamalt rafstöðvarhús rétt áður.
Ef beygt er til vinstri við gamla skógarvarðarhúsið þá er fljótlega komið að tröppum sem leiða þig upp fyrir klettana og á stíg sem endar á að gefa fallegt útsýni yfir bleika akra, út að Dímon með Vestmannaeyjar í baksýn eða sandana og hólman sem Gunnar var fyrrum á, er hann ákvað að snúa aftur heim.
Nú vil ég hvetja ykkur sveitungar góðir til útivistar og sjá hvaða perlu forverar okkar, sveitarfélagið og Skógræktin hafa búið okkur. Myndirnar eru frá í sumar og ættu ekki að skemma upplifun sem verður væntanlega allt önnur nú á aðventunni.
Svæðið er í umsjón skógræktarinnar og eins og öll hennar svæði eru þau opin öllum almenningi til útivistar allan ársins hring.