Náttúruperlur í Rangárþingi eystra hafa verið afar vinsælar til kvikmyndatöku síðastliðin ár, hvort sem það hefur verið fyrir kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tónlistarmyndbönd. Bæði íslensk og erlend tökulið hafa nýtt sér ægifagra náttúru sveitarfélagsins og ósjaldan má einnig sjá fossana okkar sem bakgrunn fyrir auglýsingar. BBC hefur tekið upp barnaþætti í sveitarfélaginu, finnska sinfóníuhljómsveitin tekið upp tónlistarmyndband o.s.frv.
Eitt nýlegasta dæmið er að Seljalandsfoss kemur við sögu í einu atriði sjónvarpsþáttanna Star Trek Discovery á Netflix en Star Trek er eitt allra vinsælasta efnið innan vísindaskáldskapar og þó víðar væri leitað.
Myndirnar eru skjáskot úr 1. þættinum.
Seljalandsfoss var einnig hluti af tónlistarmyndbandinu við lagið I'll show you með Stórstjörnunni Justin Bieber frá árinu 2015.
Skógafoss er án efa einn allravinsælasti kvikmyndastaður landsins. Í kvikmyndinni Secret life of Walter Mitty frá 2013 er Skógafoss orðinn að landslagi í Nepal og í kvikmyndinni Thor: The Dark World er Skógafoss hvorki meira né minna en hluti af landslagi Ásgarðs. Skógafoss birtist einnig í 5. seríu sjónvarpsþáttanna Víkingar.
Ótrúlegt en satt þá hefur Eyjafjallajökull líka verið notaður í nýlegri kvikmynd en ísplánetan Hoth í Star Wars: The Force Awakens, er einmitt jökullinn sjálfur.
Game of Thrones þættirnir voru allra vinsælasta sjónvarpsefnið vestanhafs meðan þeir voru sýndir sem og hér á Íslandi. Ísland kom mikið við sögu og var þar í stóru hlutverki sem bakgrunnur fyrir svæðið norðan veggjarins. Stakkholtsgjá og Skógafoss, reyndar í aðeins breyttri mynd, eru hluti af þáttum í 7. og 8. þáttaröðinni.
Rangárþing eystra hefur nýlega tekið upp rafræn eyðublöð fyrir fyrirtæki sem vilja koma með ljós- og/eða kvikmyndatöku verkefni innan sveitarfélagsins. Eyðublaðið má finna hér.