Í mörg ár hefur Heilsuefling verið hluti af stefnu stjórnvalda í Rangárþingi eystra og fjölmörg skref stigin í þá átt. Hvolsskóli og Leikskólinn Örk hófu innleiðingu Heilsueflandi skóla árið 2016 og stendur sú innleiðing enn yfir enda um langtímaverkefni að ræða. Rangárþing eystra hefur til margra ára stutt við íþróttastarfsemi og verið með samstarfssamninga við íþróttafélög í sveitarfélaginu sem hefur verið afar farsælt og skapað tækifæri fyrir börn að stunda fjölmargar íþóttagreinar.
Mörg heilsueflandi verefni eru í sveitarfélaginu fyrir alla aldurshópa og má þar nefna 10 tinda verkefni Hvolsskóla, þar sem nemendur ganga á eitt fjall á ári alla grunnskólagögnuna, íþróttadaginn á Leikskólanum Örk þar sem allir taka þátt, nemendur og kennarar, hreyfingu fyrir aldurshópinn 60+ svo fátt eitt sé nefnt. Rangárþing eystra býður uppá mjög góða aðstöðu til alhliða þróttaiðkunar sem svo sem íþróttamiðstöð, líkamsræktarsal, sundlaug, heilsustíg, folfvöll o.fl.. Einnig er um þessar mundir unnið að nýju deiliskipulagi fyrir skóla og íþóttasvæði þar sem mjög metnaðarfullar hugmyndir til framtíðar eru hafðar að leiðarljósi.
Nú í morgun var svo stigið það framfaraskref að formgera heilsueflandi aðgerðir með því að undirrita samning við Embætti landlæknis um Heilsueflandi samfélag. Heilsueflandi samfélag er samfélag þar sem tekið er mið af heilsu og vellíðan allra íbúa í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Þar er unnið markvisst lýðheilsustarf með lýðheilsuvísa, gátlista HSAM og viðeigandi gögn til að meta stöðuna með tilliti til íbúa á öllum æviskeiðum og forgangsraða í samræmi við þá greiningu. Unnið er heildstætt með áhrifaþætti heilbrigðis og er meginmarkmið starfsins að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa í Rangárþingi eystra.
Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna samfélög að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Á meðfylgjandi myndum má sjá Lilju Einarsdóttur, sveitarstjóra og Ölmu Möller, landlækni undirrita samninginn. Á bak við þær stendur flottur hópur krakka úr leikskólanum Örk sem söng 2 lög við athöfnina.