Sleipnisbikarinn, heiðursverðlaun íslenskrar hrossaræktar, var afhentur þeim Guðmundi Viðarssyni og Jakobi Svavari Sigurðssyni, ræktendum stóðhestsins Skýrs frá Skálakoti, á Landssýningu kynbótahrossa sem fram fór á Gaddstaðaflötum helgina 26. - 28. júní.
Sleipnisbikarinn er veittur þeim stóðhesti sem stendur efstur til afkvæma og er venju samkvæmt afhentur á Landsmóti hestamanna, en þegar ljóst varð að blása yrði af Landsmótið vegna kórónaverufaraldursins var ákveðið að stefna að sýningarhaldinu í staðinn og afhentu Bændasamtökin bikarinn við það tilefni. Skýr frá Skálakoti státar af glæsilegum árangri, en hann er 13 vetra stóðhestur með 128 stig í aðaleinkunn í kynbótamati og 52 sýnd afkvæmi. Guðmundur og Jakob voru að vonum gríðarlega ánægðir með viðurkenninguna, enda um að ræða ein virtustu og elstu verðlaun sem veitt eru í hrossarækt hér á landi.
Hundruð áhorfenda fylgdust með sýningunni í beinu streymi á netinu, en þar gátu áhorfendur valið að hafa lýsinguna á íslensku, ensku eða þýsku.
Hér, á bls 10, er hægt að lesa meira um hvernig Landssýning kynbótahrossa fór fram.