Hótel Anna er staðsett á Moldnúpi undir Eyjafjöllum en þar hafa hjónin Eyja Þóra Einarsdóttir og Jóhann Frímannsson byggt um glæsilega ferðaþjónustu ásamt sonum sínum. En hver var þessi Anna?
Sigríður Anna Jónsdóttir var fædd 20. janúar 1901 í Gerðakoti undir Eyjafjöllum. Hún fluttist ung að Moldnúpi og var ávallt þekkt sem Anna frá Moldnúpi. Þegar Anna var um fimmtug fór hún að gefa út bækur og það sem meira var ferðabækur um ferðir sínar út í heim. Alls gaf Anna út 5 ferðaævisögur: Fjósakona fer út í heim(1950), Förukona í París (1952), Ást og demantar; ferðasaga um meginlandið til Bretlands 1951(1954), Ég kveikti á kerti mínu; ferðaþættir frá Ítalíu(1961) og Tvennar tíðir(1970).
Anna var á margan hátt afar merkileg kona, hún hélt til Reykjavíkur til náms og lét ekki féleysi stöðva sig heldur réri út eftir fisk og þvoði þvotta til að halda sér á floti. Eftir að heim var komið vann hún sem verkakona, óf fyrir fólk sem og ýmsa skrautmuni en listilega vel ofið teppi eftir Önnu er varðveitt á Byggðasafninu í Skógum. Þessa vinnu vann hún til að geta svalað þeirri miklu ferðaþrá sem henni bjó í brjósti. Anna fer sína fyrstu ferð 1946 þegar hún fer hringferð um Ísland með skipi á tíu dögum. Árið eftir fór hún með skipi til Danmerkur og dvaldi þar nokkra mánuði. Að lokum fór hún árið 1948 til Englands og meginlands Evrópu og dvaldi þar einnig í nokkra mánuði. Allar ferðirnar fór Anna af miklum vanefnum, en bjartsýni og eljusemi, og ferðaðist samkvæmt einkunnarorðum ömmu sinnar: „Ef guð ætlar manni að lifa, þá veit hann að hann verður að leggja manni eitthvað til”
Á Hótel Önnu er sýning tileinkuð Önnu frá Moldnúpi sem er áhugavert að skoða.
Umfjöllun um Önnu á vefsíðu Hótel Önnu (á ensku)