Parið Birta Guðmundsdóttir og Tor Holmgren opnuðu í vor, nánar tiltekið í apríl, ferðaþjónustuna Outdoor Activity í kringum göngu- og kanóferðir undir Eyjafjöllum. Hugmyndina að rekstrinum fengu þau út frá kanóum sem þau fundu í fjárhúsum í nágrenninu, en kanóarnir höfðu legið þar lítið notaðir í talsverðan tíma og þeim fannst tilvalið að nýta þá í eitthvað uppbyggilegt og spennandi. Út frá þessari hugmynd ákváðu þau svo að nýta þekkingu sína á svæðinu og bættu við gönguferðum í sínu nærumhverfi og fjöllunum sem þau þekkja svo vel.
Tor kemur frá Svíþjóð, nánar tiltekið Helsingborg, og er mikill útivistarmaður sem hefur ferðast vítt og breytt um heiminn. Tor kom fyrst til Íslands árið 2016 og líkaði svo vel að hann kom til baka árið eftir og hóf þá störf í Skálakoti þar sem hann sá aðallega um hestaleiguna til að byrja með. Birta er hinsvegar Eyfellingur í húð og hár, alin upp í Skálakoti undir Eyjafjöllum þar sem að foreldrar hennar reka ferðaþjónustu. Hún er búfræðingur að mennt, en hún ákvað að námi loknu að snúa aftur í heimahagana í Skálakoti þar sem hún kynntist svo Tor. Tor hafði talsverða reynslu af bæði kanóum og kajaksiglingu frá heimalandinu þar sem fjölskyldan hans átti sumarhús við sjóinn og fór reglulega á sjókajak saman.
Með þessa reynslu í farteskinu, þekkingu og kunnáttu á svæðinu um kring og löngun til að prófa eitthvað nýtt og spennandi saman, varð á endanum úr ferðaþjónustufyrirtækið Outdoor Activity. Samkvæmt Tor fer eftirspurnin stöðugt vaxandi og hann horfir björtum augum til framtíðar. Á heimasíðu Outdoor Activity er hægt að finna góðar upplýsingar um hverskonar ferðir þau bjóða uppá, en þau leggja mikla áherslu á persónulega þjónustu og að búa til einstaka og eftirminnilega upplifun fyrir hvern og einn
Þú getur líka fundið Outdoor Activity á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.