11. desember er Dagur fjallsins og getum við í Rangárþingi eystra státað okkur af hinum ýmsu fjöllum og firnindum. Margar af vinsælustu fjallgönguleiðum landsins má finna í sveitarfélaginu og allir ættu að geta fundið sér fjall til að glíma við. Hægt er að finna umfjöllun um mörg þeirra hér á síðunni undir Áhugaverðir staðir og á síðu Kötlu jarðvangs enda mörg fjöll sem flokkast sem jarðvættir innan jarðvangsins.
Nemendur Hvolsskóla eru líka dugleg að ganga á fjöll og í skólanum er í gangi verkefni sem ber heitið Tíu tinda ganga. Markmiðið er að hver nemandi sem er í skólanum í tíu ár hafi farið á tíu tinda í héraði við lok grunnskólagöngu. Gengið var á fjöll í áttunda sinn í ár og því styttist í að fyrsti árgangurinn sem hefur farið á tíu tinda útskrifist. Í ár fór 1. bekkur venju samkvæmt á Stóru-Dímon. 2.-4. bekkur gekk yfir Vatnsdalsfjall, 5.-7. bekkur fór upp á Þórólfsfell og 8.-10. bekkur gekk á Þríhyrning.