Krosskirkja er í Holtsprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi. Timburkirkjan, sem nú stendur, var byggð árið 1850. Víðtækar endurbætur á kirkjunni fóru fram á árunum 1934, 1966 og 1971.
Altaristaflan er frá 1650. Katólskar kirkjur voru helgaðar Ólafi helga, Noregskonungi. Að Krossi var prestssetur fram að aldamótunum 1900.
Árið 1859 var Sigluvíkursókn í Vestur-Landeyjum lögð til Kross og sameinuð Voðmúlastaðasókn vorið 1912 með kirkju í Akruey. Prestsetrið var flutt að Bergþórshvoli og brauðið var kallað Krossþing eða Landeyjaþing til 1952.
Hönnuður er talinn vera Halldór Guðmundsson forsmiður í Strandarhjáleigu.
Í öndverðu var kirkjan klædd slagþili og rennisúð en var síðar klædd bárujárni. Árið 1934 var kirkjan klædd að innan með krossviði, smíðuð í hana hærri hvelfing en verið hafði, setuloft stytt, þil gert um altaristöflu og forkirkja þiljuð af framkirkju.
Kirkjan er með elstu húsum í Rangárvallasýslu, og þótt víðar væri leitað. Altaristafla kirkjunnar er ein merkasta gersemi íslenskrar menningarsögu og hafa Landeyingar varðveitt hana vel í hátt í 400 ár. Altaristaflan er frá árinu 1650 og er því 370 ára gömul. Það voru þeir Kláus Eyjólfsson lögréttumaður í Hólmum í Landeyjum og Níels Klementsson Kaupmaður í Vestmannaeyjum sem gáfu altaristöfluna í tengslum við Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum.
Altarisskápurinn í kirkjunni er einnig fallegur menningararfur en hann var smíðaður af Ámunda Jónssyni Kirkjusmið á átjándu öld.
Vinna við endurbætur á Krosskirkju hafa að nýju staðið yfir frá árinu 2015. Verkið hefur verið unnið með hléum og kláraðist að mestu í júní 2020..
Að sögn Elvars Eyvindssonar, bónda frá Skíðbakka og formanns sóknarnefndar Krosssóknar, þá hófst vinnan árið 2013 með umsókn til Húsafriðunarsjóðs. Verkefnið með umsókninni var að gera úttekt og skýrslu um byggingarsögu kirkjunnar, og var hún í framhaldinu teiknuð upp. Það voru sérfræðingar frá Argos arkitektum sem unnu þá vinnu og höfðu þeir m.a. til hliðsjónar lýsingar á kirkjunni frá árinu 1850.
Húsasmíðameistararnir sem hafa unnið að endurgerð kirkjunnar eru þeir Hjálmar Ólafsson frá Hvolsvelli sem hóf verkið árið 2015 og lagaði norður og suður veggi kirkjunnar. Árið 2018 tóku við verkinu þeir Ólafur og Albert Sigurjónssynir og Þórbergur Hrafn Ólafsson á Forsæti í Flóa. Þeir gerðu gaflana í kirkjunni, smíðuð öll loftin, gólfin, milligólfið, bekkina, altarið og predikunarstólinn.
Mikil ánægja var við lok verksins í gær enda handverkið einstakt og hvergi misfellu að sjá. Elvar, sem hefur verið formaður sóknarnefndar frá því verkið hófst, segir að allt samstarf hafi gengið vel og ákvarðanir teknar í einum rómi. Kirkjan er einstaklega falleg sem guðshús og sem minnisvarði um gamlan stíl í anda miðalda.
Best er að hafa samband við Sigurð Sveinbjörnsson á Krossi til að skoða kirkjuna.