Hlíðarendi í Fljótshlíð er oftast kenndur við kappann Gunnar Hámundarson og Hallgerði Langbrók aðalpersónur í Brennu-Njáls sögu. Á Hlíðarenda hafa í gegnum aldir búið miklir höfðingjar, sýslumenn og fræðimenn. Einn þeirra var Vísi-Gísli Magnússon, frumkvöðull í garðrækt og hvað þekktastur fyrir að hafa fyrstur manna ræktað kúmen á Íslandi með þeim árangri að plantan hefur sest hér að og vex nú villt um land allt. Þá ólst upp á Hlíðarenda Bjarni Thorarensen ljóðskáld en hann orti m.a. „Eldgamla Ísafold".
Hlíðarendakirkja var byggð árið 1898, hún er á tveimur hæðum og tekur um 180 manns í sæti. Kirkjan er helguð heilögum Þorláki enda var hann fæddur á Hlíðarenda. Hún er mikið myndskreytt og fallega máluð að innan og sérstök fyrir það. Altaristaflan er eftirmynd altaristöflu úr kirkju í Danmörku og er hún frá því að kirkjan var vígð. Í kirkjunni eru einnig þrjár helgimyndir eftir Ólaf Túbals í Múlakoti og myndskreyttur veggur framan kórhvelfingar.