Akureyjarkirkja er timburhús, 9,60 m að lengd og 6,40 m á breidd, með skrúðhús undir minna formi við kórbak, 2,30 m að lengd og 3,20 m á lengd, og turn við vesturstafn, 2,15 m að lengd og 2,30 m á breidd. Á kirkju og skrúðhúsi eru krossreist þök en á turni hátt píramítaþak sem gengur út undan sér neðst. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar. Í þeim eru tveir krosspóstar og níu rúður glerjaðar í pósta og fíngerða þverpósta. Á vesturstafni eru tveir minni gluggar með krosspóst og sex rúður og einn á hvorri hlið skrúðhúss. Band er ofarlega umhverfis turninn og yfir því er hann klæddur sléttu járni og földum um þrjú fölsk hljómop og er yfirfaldur bogadreginn á neðri brún. Hljómop með hlera er á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru vængjarhurðir með lóðréttum spjöldum og bogaglugga yfir.
Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim og lausir bekkir hvorum megin hans. Innsti hluti kórs og altari eru byggð inn í skrúðhús við kórgafl. Dyr að skrúðhúsi eru hvorum megin altaris. Söngloft er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi til loftsins við framgafl sunnan megin. Veggir eru klæddir texplötum. Reitaskipt hvelfing er yfir kirkju stafna á milli, lágboga hvelfing yfir altari en flatt loft í skrúðhúsi.
Byggingarár: 1912 - Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.
Akureyjarkirkja er smíðuð eftir sömu teikningu og Grindavíkurkirkja frá 1909. Þil var gert milli skrúðhúss og altaris á fimmta áratugnum en áður voru tjöld fyrir skrúðhúsinu. Árið 1962 var kirkjan klædd innan með texplötum, smíðaðir í hana lausir bekkir og litað gler sett í glugga.
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.