Staðir sem hægt er að finna fyrir ofan Þríhyrning sem er í um 18 km fjarlægð frá Hvolsvelli. Keyrt er upp hjá Vatnsdal í Fljótshlíð að Fiská. Hægt er að keyra langleiðina að fossinum og hellinum eftir djúpum slóða sem byrjar við Reynifell. Slóðinn er að mestu moldartroðningar en á stöku stað er stórgrýtt. Slóðin einungis fær litlum 4x4 jeppum eða jepplingumFyrir ofan
Þríhyrning rennur Þjófá og í henni eru tveir fallegir fossar og hellisskúti sem er mjög vandfundinn. Í þessum helli dvöldu tveir þjófar á árunum 1743-44 og voru þeir hengdir á Þingskálaþingi er þeir náðust..
Húsarústir bæjarins að Þorleifsstöðum er þarna nokkru ofar. Sá bær og bæirnir í kring fóru í eyði í Heklugosinu 1947 eða upp úr því sökum vikurfalls. Þetta er fallegur staður til að stoppa á, sér í lagi í hestaferðum þarna um. Í einni slíkri týndust þar tveir demantshringar fyrir allnokkrum árum og eru getgátur um að eins sé farið með þá og kaleikinn fræga á Breiðabólstað. Álfar hafi fengið þá lánaða enda við á svipuðum slóðum og prestur var. Fundarlaunum er heitið fyrir þann sem finnur! Austan við rústirnar við Fiská er bergstandur er nefnist Smali og þar rétt ofar er manngerður hellir, allstór og með hlöðnu loftopi upp í gegnum þakið. Hellirinn er friðlýstur.