Á Hvolsvelli eru hvorki meira né minna en 7 leikvellir af öllum stærðum og gerðum. Þar á meðal eru skólaleikvellirnir við Hvolsskóla og Leikskólann Örk sem afar vinsælt er að nýta sér fyrir utan starfstíma skólana. Á miðbæjartúninu má svo líka finna lítinn kastala og Ærslabelg þannig að yngsta kynslóðin getur skemmt sér vel í heimsókn á Hvolsvelli.
Minni leikvellir eru staðsettir hér og þar í íbúðabyggðinni og nýlega sá sveitarfélagið um að merkja þá vel þannig að ekki færi á milli mála að t.d. væri bannað að henda rusli á víðavangi og ekki er leyfilegt að vera með hunda á svæðunum.
Einn elsti leikvöllur þéttbýlisins er Gamli róló sem liggur milli Hvolsvegar og Túngötu. Þar er græna svæðið stórt og mikið og tilvalið að koma t.d. með bolta með sér og leika í fótbolta. Aðrir leikvellir eru minni en alveg jafn skemmtilegir og á mörgum þeirra má líka finna stöð á Heilsustígnum þannig að meðan unga kynslóðin rólar geta þeir eldri gert nokkrar góðar æfingar.