07.07.2020
Parið Birta Guðmundsdóttir og Tor Holmgren opnuðu í vor, nánar tiltekið í apríl, ferðaþjónustuna Outdoor Activity í kringum göngu- og kanóferðir undir Eyjafjöllum. Hugmyndina að rekstrinum fengu þau út frá kanóum sem þau fundu í fjárhúsum í nágrenninu, en kanóarnir höfðu legið þar lítið notaðir í talsverðan tíma og þeim fannst tilvalið að nýta þá í eitthvað uppbyggilegt og spennandi.
06.07.2020
Á Hvolsvelli leynist Sveitabúðin Una, sveitarómantísk minjagripaverslun og markaður rekin af hjónunum Rebekku Katrínardóttur og Magnúsi Haraldssyni síðan í janúar 2018. Ásamt fallegri gjafavöru geta gestir nú nálgast ferska matvöru í Sveitabúðinni Unu, en um helgina opnuðu þau Rebekka og Magnús glæsilegan grænmetismarkað og hófu samtímis sölu á kjöti beint frá býli.
02.07.2020
í dag var ungmennum í vinnuskóla Rangárþing eystra boðið í grillveislu á Breiðabólstað hjá séra Önundi S. Björnssyni og Kristjönu Þráinsdóttur sambýliskonu hans. Ungmennin voru búin að hreinsa og snyrta svæðið í kringum krikjuna í blíðunni í gær og í dag. Séra Önundur er að láta af störfum en hann hefur verið prestur á Breiðabólstað í 22 ár. Hann mun ferma í lok sumars þau börn sem áttu að fermast síðast liðið vor.
Í vinnuskólanum eru rúmlega 40 ungmenni og hafa þau verið duglega við að fegra sveitarfélagið síðan í byrjun júni. Flest þeirra starfa út júlí. Á myndunum er hópurinn ásamt séra Önundi og Kristjönu við Breiðabólstaðakirkju og séra Önundur að grilla fyrir hópinn.
01.07.2020
Naflahlaupið fer fram laugardaginn 29. ágúst sömu helgi og Kjötsúpuhátíðin á Hvolsvelli verður haldin. Naflahlaupið var fyrst haldið sumarið 2010. Nafnið er vísun til þess að um nafla alheimsins sé að ræða en það ár beindust allra augu að þessu svæði vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Naflahlaupið var viðleitni einstaklinga til að sýna fram á að þrátt fyrir allt væri öllu óhætt á þessu svæði, í Naflanum væri hreint og tært loft og góðar aðstæður til útivistar. Allur ágóði hlaupsins hefur runnið óskiptur til marga góða málefna.
2010 rann ágóðinn til Leikskólans Arkar.
2011 rann ágóðinn í starfsemi sjúkraflutinga á Hvolsvelli.
2012 rann ágóðinn til unglingadeildar Dagrenningar.
2013 rann ágóðinn til Grunnskólans á Hvolsvelli.
2014 rann ágóðinn til Kirkjuhvols á Hvolsvelli.
2015 rann ágóðinn til Lundar á Hellu.
2016 rann ágóðinn til unglingadeildar flugbjörgunarsveitar Hellu.
2017 rann ágóðinn til heilsugæslustöðvar Hvolsvelli til tækjakaupa.
2018 rann ágóði til fjölskyldu Kristínar Halldórsdóttur
2019 rann ágóði og skráningargjöld Naflahlaupsins til fjölskyldu Ólafar Bjarnardóttur.
30.06.2020
Lilja Einarsdóttir sveitarstjóri Rangárþings eystra er í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu sem kom í út í gær, mánudaginn 29. júní. Þar fer hún yfir þær áskoranir og verkefni sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir í kjölfar Covid-19. Hún segir einnig frá þeirri framtíðarsýn að nýta þau tækifæri og auðlindir sem sveitarfélagið býður upp á m.a. í tengslum við nýsköpun og að gera sveitarfélagið að gæða búsetukosti fyrir ungt fólk sem að hennar mati er framtíðin.
29.06.2020
Áhugavert og fræðandi viðtal við Ísólf Gylfa Pálmason, fyrrverandi sveitarstjóra, í kynningarblaði Fréttablaðsins "Ísland komdu með" sem kom út laugardaginn 27. júní síðastliðinn. Það eru fáir sem þekkja sveitarfélagið okkar fallega eins vel og Ísólfur Gylfi, enda á hann ekki í vandræðum með að telja upp nokkrar af helstu perlum Rangárþings eystra og áfangastaði sem enginn má láta fram hjá sér fara.
27.06.2020
Skemmtilegt viðtal við Ómar Úlf Eyþórsson Hvolsvelling og útvarpsmann. Hann ólst upp á Hvolsvelli og býr í dag í Kópavogi, en ræturnar toga hann heim og í dag á hann einnig hús á Hvolsvelli og er þar eins mikið og hann getur. Ómar er duglegur að njóta náttúrunnar sem er allt í kring og segir hann hér frá skemmtilegum bernskuminningum og góðum hugmyndum fyrir ferðalanga sem heimsækja Rangárþing eystra og Hvolsvöll.
25.06.2020
Í mörg ár hefur Heilsuefling verið hluti af stefnu stjórnvalda í Rangárþingi eystra og fjölmörg skref stigin í þá átt. Hvolsskóli og Leikskólinn Örk hófu innleiðingu Heilsueflandi skóla árið 2016 og stendur sú innleiðing enn yfir enda um langtímaverkefni að ræða. Rangárþing eystra hefur til margra ára stutt við íþróttastarfsemi og verið með samstarfssamninga við íþróttafélög í sveitarfélaginu sem hefur verið afar farsælt og skapað tækifæri fyrir börn að stunda fjölmargar íþóttagreinar.
Mörg heilsueflandi verefni eru í sveitarfélaginu fyrir alla aldurshópa og má þar nefna 10 tinda verkefni Hvolsskóla, þar sem nemendur ganga á eitt fjall á ári alla grunnskólagögnuna, íþróttadaginn á Leikskólanum Örk þar sem allir taka þátt, nemendur og kennarar, hreyfingu fyrir aldurshópinn 60+ svo fátt eitt sé nefnt. Rangárþing eystra býður uppá mjög góða aðstöðu til alhliða þróttaiðkunar sem svo sem íþróttamiðstöð, líkamsræktarsal, sundlaug, heilsustíg, folfvöll o.fl.. Einnig er um þessar mundir unnið að nýju deiliskipulagi fyrir skóla og íþóttasvæði þar sem mjög metnaðarfullar hugmyndir til framtíðar eru hafðar að leiðarljósi.
Nú í morgun var svo stigið það framfaraskref að formgera heilsueflandi aðgerðir með því að undirrita samning við Embætti landlæknis um Heilsueflandi samfélag. Heilsueflandi samfélag er samfélag þar sem tekið er mið af heilsu og vellíðan allra íbúa í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Þar er unnið markvisst lýðheilsustarf með lýðheilsuvísa, gátlista HSAM og viðeigandi gögn til að meta stöðuna með tilliti til íbúa á öllum æviskeiðum og forgangsraða í samræmi við þá greiningu. Unnið er heildstætt með áhrifaþætti heilbrigðis og er meginmarkmið starfsins að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa í Rangárþingi eystra.
Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna samfélög að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Á meðfylgjandi myndum má sjá Lilju Einarsdóttur, sveitarstjóra og Ölmu Möller, landlækni undirrita samninginn. Á bak við þær stendur flottur hópur krakka úr leikskólanum Örk sem söng 2 lög við athöfnina.
25.06.2020
Í lok síðust viku komu saman öll ungmenni sem hafa unnið við fegrun og endurbætur í Tungu- og Tumastaðaskógi í Fljótshlíð í sumar og grilluðu. Tilefnið var að verkefnin í skógunum var að ljúka, en þau hafa staðið sig einstaklega vel og hafa grisjað og hreinsað brotnar greinar og séð um að kurla það líka. Þau lögðu hátt í 2 km af kurli í göngu og hjólastíga. Búið er að slá flatir og setja þar bekki og borð. Eldstæði var hlaðið þar sem hægt er að grilla, vatnslögn var lögð að salernishúsi og komið var upp vatnskrana fyrir neysluvatn. Bekkir, gerðir úr timbri úr skóginum, eru á megingönguleiðinni þar sem gott er að sitja og hlusta á lífið í skóginum og finna ilminn af trjánum. Aðgengi að svæðinu hefur verið bætt með stækkun bílastæða. Ungmennin prófuðu hjólaleiðirnar sem eru stikaðar og merktar og allir ánægðir með afraksturinn. Samstarf hefur verið við Skógræktina við þessa vinnu og er nú unnið að nýju yfirlitskorti fyrir svæðið allt.
23.06.2020
Einar Sigurþórsson frá Háamúla í Fljótshlíð rifjar hér upp gamlan tíma og kynni sín við Múlakotsheimilið.
Skemmtilegur og fróðlegur lestur þar sem Einar lýsir íbúum og aðbúnaði í Múlakoti einstaklega vel.
Einar Sigurþórsson rafvirki er uppalinn í Háamúla í Fljótshlíð, nokkru innar en Múlakot. Þar hefur hann búið stóran hluta ævinnar og unnið sem rafvirki um áratuga skeið víða um Suðurland.
Hann var og er enn tíður gestur í Múlakoti, enda tekur hann nú þátt í enduruppbyggingu gamla bæjarins í Múlakoti.