Þessa dagana fer fram Íslandsmótið í flugi í Rangárþingi og í kjölfarið af því hefst svo flughátíðin Allt sem flýgur 2020 þann 10. júlí. Af því tilefni býður Flugmálafélag Íslands, í samvinnu við H2 Ballooning, uppá flug í loftbelg sem mun fljúga frá Hótel Rangá og flugvellinum á Hellu á meðan á hátíðarhöldunum stendur. Loftbelgir eru belgir með léttu gasi, nógu léttu til að belgurinn í heild, með umbúðum, farmi og farþegum, geti lyfst frá jörð og svifið um loftin blá. H2 Ballooning er þýskt fyrirtæki með áratugareynslu af loftbelgjaflugi og frá þeim verður Dominik Haggeney aðal flugmaður loftbelgsins. Loftbelgurinn tekur þrjá farþega í hverri ferð svo nú er um að gera að nýta tækifærið vel og prófa þennan skemmtilega ferðamáta, enda ekki á hverjum degi sem það stendur til boða sjá eða að fljúga með loftbelg í Rangárþingi.
Íslandsmótið í flugi hófst í gær, 6. júlí, og stendur yfir til 10. júlí. Þá tekur við flughátíðin, Allt sem flýgur, sem lýkur svo á sunnudaginn 12. júlí. Alla þessa daga verður hægt að fljúga með loftbelgnum, en vegna mikillar aðsóknar verður að skrá sig á biðlista þar sem hægt er að taka fram hvenær og hversu langt flug maður hefur áhuga á að fara í. Flugið er líka mjög háð veðri, en haft verður samband við fólk sem hefur skráð sig á biðlista þegar aðstæður skapast sem henta fyrir flug.
Hægt er að skrá sig á biðlista fyrir flug í loftbelgnum hér. Í skráningarskjalinu er svo að finna ýtarlegri upplýsingar um tímasetningar og verð.
Dagskrá Íslandsmótsins í flugi finnur þú hér.
Dagskrá flughátíðarinnar Allt sem flýgur finnur þú hér.