Síðastliðin 11 ár hefur Bókasafn V-Eyfellinga og Kvenfélagið Eygló haldið við skemmtilegri hefð en það er að vera með Bókakaffi yfir vetrartímann. Í dag, 15. september, verður fyrsta Bókakaffi vetrarins haldið en til að gæta fyllstu aðgátar og fara eftir settum reglum verður kaffið í kaffisalnum. Bókakaffið er frá 14-17 og þar er tilvalið að koma og glugga í bækur, taka með sér handavinnuna eða eiga bara gott spjall yfir kaffibolla. Kvenfélagskonur sjá um kaffi fyrir alla og alltaf er eitthvað heimabakað með því.
Í grein Rósu Aðalsteinsdóttur, bókavörðs, síðan 2012 stendur:
Bókakaffið hefur verið svo vel sótt, að okkur finnst greinilegt, að það uppfylli einhverja félagsþörf, sem hafi verið til staðar. Ekki taka allir þátt í félagsstarfi eldri borgara, enda um langan veg að fara fyrir suma. Svo hefur komið í ljós, að allir aldurshópar hafa ánægju af þessari samveru. Þarna ríkir góður andi, allir velkomnir, og vonandi heldur þetta starf áfram, enda hvetjum við fleiri til að koma og vera með.